Sunnudagur, 11. nóvember 2007
Þetta skulu allir lesa......
Það geta allir findið sig hér.
10. nóvember 2007
Stjórnmálaályktun haustfundar miðstjórnar Framsóknarflokksins
Stjórnartíð Framsóknarflokksins sl. 12 ár hefur verið gjöful íslenskri þjóð. Atvinnulífið hefur blómstrað og fyrirtæki sótt fram. Kaupmáttur launa hefur aukist meira en áður hefur þekkst og staða ríkissjóðs hefur aldrei verið betri. Stöðugleiki og styrk efnahagsstjórn hafa gert okkur kleift að skjóta styrkari stoðum undir velferðarkerfið. Óvíða í heiminum er betra að búa en á Íslandi og bjartsýni og áræðni einkenna í dag íslenska þjóð.
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar tók við góðu búi á vordögum. Framsóknarflokkurinn styður ríkisstjórnina til góðra verka en verður jafnframt gagnrýninn á það sem miður horfir. Á stuttum valdatíma hafa ríkisstjórnarflokkarnir ekki verið samstíga og tekið stórar ákvarðanir án nauðsynlegs og eðlilegs samráðs við ýmsa aðila í þjóðfélaginu. Það er áhyggjuefni.
Það á að vera eitt grundvallarmarkmið efnahagsstjórnar að tryggja með viðunandi hætti afkomu atvinnulífs og heimila í landinu. Lýst er áhyggjum af sinnuleysi ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum sem mun leiða af sér veikari stöðu heimilanna og atvinnulífsins. Mikilvægt er að áfram verði sýnd fyllsta ábyrgð í ríkisfjármálum og aðhalds gætt við gerð fjárlaga sem m.a. styrkir hagstjórnina og tryggir áframhaldandi sterka stöðu ríkissjóðs. Miðstjórn hvetur til aðgerða sem fela í sér aukinn sparnað í samfélaginu og telur stjórnvöld hafa hlutverki að gegna í því sambandi.
Stöðugt þarf að standa vörð um jafnrétti til náms. Það verður einungis tryggt með því að í boði sé öflugt og fjölbreytt nám án skólagjalda í leik-, grunn- og framhaldsskólum og í grunnnámi á háskólastigi. -. Áframhaldandi framþróun íslensks samfélags felst ekki hvað síst í því að stórauka tækifæri til fjölbreyttrar menntunar og nýsköpunar í atvinnulífinu. Aðeins með þeim hætti verður fleiri og fjölbreyttari stoðum skotið undir íslenskt efnahagslíf til stuðnings margbreytilegu og blómlegu mannlífi um land allt. Fyrsta skrefið í þeim efnum er að hraða vinnu við endurskoðun laga um einstök skólastig og byggja upp starfsmenntaháskóla. Samhliða þessu þarf að auka framlög til rannsókna á vegum háskóla og háskólasetra annars vegar og þróunarstarfs fyrirtækja hins vegar. Með öflugri framfarasókn á þessum sviðum verður samkeppnishæfni íslensks samfélags aukin enn frekar og lífskjör jöfnuð. Þannig verði stuðlað að auknu byggðajafnvægi og að Ísland skipi sér áfram í fremstu röð á meðal þjóða heims.
Miðstjórn lýsir andstöðu við framkomnar hugmyndir um einkavæðingu í heilbrigðisþjónustu, sem yrði skref í átt til tvöfalds heilbrigðiskerfis, og hafnar slíkum hugmyndum alfarið. Einnig lýsir miðstjórn andstöðu við hugmyndir um einkavæðingu orkufyrirtækja og ítrekar þá stefnu flokksins að Landsvirkjun sé ekki til sölu. Einn megingrundvöllur Landsvirkjunar hefur falist í þeirri sérstöðu að hafa aðgang að orkuauðlindum landsins í krafti almannahagsmuna. Stjórnarsáttmáli núverandi ríkisstjórnar er afar óljós hvað þessi mál varðar og yfirlýsingar stjórnarliða misvísandi. Slíkt er áhyggjuefni.
Miðstjórn fagnar útrás íslenskrar þekkingar og reynslu á sviði orkumála. Sú þekking hefur orðið til við hagkvæma og skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda hér á landi á undanförnum áratugum. Mikilvægt er að halda áfram á sömu braut og mun Framsóknarflokkurinn styðja slíka útrás hér eftir sem hingað til.
Miðstjórn áréttar þá stefnu flokksins að landsmönnum öllum verði tryggður arður af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar en greiðslur fyrir afnot þeirra renni í sérstakan auðlindasjóð. Jafnframt verði tryggt að auðlindir landsins sem í dag eru í eigu opinberra aðila verði áfram í samfélagslegri meirihlutaeign. Þess verði gætt að við lagasetningu um þessi mál verði ekki gengið inn á stjórnarskrárvarinn eignarrétt einstaklinga og lögaðila.
Sú einkavæðing sem Framsóknarflokkurinn stóð að í síðustu ríkisstjórn varðaði fyrirtæki á virkum samkeppnismarkaði. Reynslan hefur sýnt að hún leysti úr læðingi mikið afl, sem í tilfelli fjármálafyrirtækjanna hefur orðið að nýrri stoð í íslensku efnahags- og atvinnulífi. Miðstjórn áréttar þá stefnu flokksins að stuðla beri að eðlilegri og heilbrigðri samkeppni á markaði, neytendum til hagsbóta. Jafnframt er ítrekað mikilvægi eftirlitsstofnana í því sambandi, sjálfstæði þeirra og burðir til að sinna sínu hlutverki.
Framsóknarmenn leggja á það ríka áheyrslu að staðinn verði vörður um Íbúðalánasjóð. Hræringar undanfarinna daga á húsnæðismarkaði hafa sýnt mikilvægi þess að ríkið tryggi almenningi eðlilegt aðgengi að fjármagni til kaupa á eigin húsnæði á kjörum sem hægt er að lifa við.
Í komandi kjarasamningum er afar brýnt að þeir sem lökust hafa kjörin hafi algjöran forgang og ráðist verði gegn launamun kynjanna. Eðlilegt er að ríkisstjórnin komi í því sambandi að kjarasamningum, t.d. með hækkun skattleysismarka. Hagsmuni fjölskyldunnar þarf einnig að hafa að leiðarljósi við gerð kjarasamninga. Á Íslandi er vinnuvikan hvað lengst í hinum vestræna heimi og kemur það helst niður á fjölskyldulífinu og því umhverfi sem uppeldi barna okkar er skapað. Mikilvægt er að í komandi kjarasamningum verði dagvinnulaun hækkuð þannig að þau dugi fyrir framfærslu og lífsafkomu fólks.
Miðstjórn lýsir yfir vonbrigðum með þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur boðað til að mæta skerðingu aflaheimilda í þorski. Þær eru ómarkvissar og gagnast illa þeim sem harðast verða úti vegna skerðingarinnar. Miðstjórn leggur áherslu á raunhæfar aðgerðir til að mæta þeim samdrætti sem fyrirsjáanlegur er af þessum sökum og telur nauðsynlegt að komið verði í veg fyrir atgervisflótta úr sjávarbyggðunum. Í því samhengi er sérstaklega vakin athygli á tillögum þingflokks framsóknarmanna þar sem komið er til móts við þá aðila sem verða fyrir beinni tekjuskerðingu vegna samdráttar í fiskveiðum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.