Hér er engin SPILLING....................

Hér er engin spilling!

Sænsk ráðfrú keypti bleiur á kreditkort sem var í eigu ríkisins. Forsætisráðherra vissi meira en hann gaf uppi í Tamílamálinu. Oddviti stjórnarandstöðunnar keyrði fullur á steypuklump um hánótt og hringdi sjálfur í lögregluna og beið örlaga sinna. Önnur sænsk ráðfrú í stjórn Reinfelds borgaði ekki afnotagjöldin hjá SVT. Hlutabréfaeign eiginmanns ráðfrúar komst í hámæli. Ráðfrúin reyndi að tala þetta niður í fjölmiðlum. Norskur ráðherra lét ríkið borga leigubílanótu sem tengdist einkaerindum. Utanríkisráðherra Finnlands sendi SMS til strípidrottningar. Norskur þingmaður hringdi án afláts í spákonu og notaði til þess síma þingsins.

Hér er listi yfir fólk sem var við völd á Norðurlöndunum en gerðu mistök í starfi eða sýndu dómgreindarbrest . Umdeilanlegt er hversu alvarleg þessi afglöp eru en allir þeir sem hér eru nefndir sögðu af sér í kjölfarið. Þetta eru aðeins þeir aðilar sem komu upp í hugann á 5 mínútna hugarflugi. Það er fjöldi annarra sem hægt væri að nefna og ef haldið er lengra austur og suður verður listinn ansi langur.

Á Íslandi er þessu öðruvísi farið. Einum ráðherra hefur verið vikið frá störfum fyrir afar óheppileg tengsl við gjaldþrota fyrirtæki og stjórnarsetu í banka. Hann brást við með því að bjóða sig fram í öðrum flokki skömmu síðar og komast þannig á þing. Endaði ferilinn sem sendiherra. Annar ráðherra sagði af sér vegna þess að hann réði fólk í vinnu sem var tengt honum fjölskylduböndum. Hann gerðist sendiherra í kjölfarið. Þingmaður stal stórum upphæðum úr kassa ríkisins, laug að fjölmiðlum – hann var dæmdur í fangelsi í kjölfarið. Æran var uppreist og hann er aftur kominn á þing. Mætti auðvitað nefna hæstarréttardómarann sem safnaði brennivíni á kostnað ríkisins og þurfti að dæma frá embætti.

Ráðfrú byggir sér gullklósett og maki hennar er þátttakandi í olíusamráðinu.

Fjármálaráðherra fær greiddan arð af hlutabréfum í banka í ágúst 2008 – allt árið hefur hann búið yfir vitneskju um afar slæma stöðu íslensk bankakerfis. Eignarhlutur hans er ekki gefinn upp en heildararðurinn sem hluthafarnir tóku sér var 13,5 milljarðar.

Ráðherra kaupir brennivín á ríkiskjörum og veitir gestum í fertugsafmæli vinar síns.

Þingmaður er stjórnarformaður og eigandi hlutar í olíufyrirtæki auk fjölmargra annarra fyrirtækja – eign hans er óræð.

Þingmaður, sem var aðstoðarmaður forsætisráðherra, sat í stjórn sjóða í gjaldþrota banka og þáði hundruð þúsund á mánuði í viðbót við þingfararkaupið.

Forsætisráðherra er tengdur blóðböndum og vináttu við helstu leikmenn bankakerfisins sem var. Hann faðmaði opinberlega varaformann bankans sem gaf okkur IceSave reikningana eftir að það hneyksli komst í hámæli.

Seðlabankastjóri vaknar við símtal frá sendiherra Rússlands. Skömmu síðar er hann kominn í fjölmiðla að segja frá lánaloforði sem síðar kemur í ljós að var hreint ekkert á hreinu. Um kvöldið gefur hann út yfirlýsingar sem má færa rök fyrir að hafi valdið ómældum skaða fyrir þjóðina.

Ráðfrú var með allan sinn sparnað, sem að mestu samanstóð af bankabréfum í einkahlutafélagi. Eiginmaður hennar ráðlagði viðskiptavinum bankans að halda í bréf sín í bankanum fram á síðasta dag. Sjálfur færði hann allt í einkahlutafélag auk þess sem persónulegar ábyrgðir toppanna í bankanum vegna lána voru felldar niður. Ráðfrúin eiginkona hans sat á sama tíma á ríkisstjórn þar sem m.a. var ákveðið að bjarga þessum banka frekar en öðrum.

Sveitarstjórnarmaður keyrir fullur. Hann er í framhaldinu gerður að aðstoðarmanni ráðherra.

Þingmaður keyrir fullur.

Tilvonandi bæjarstjóri keyrir fullur og flýr af vettvangi.

Hér er ekki minnst á forstjóra, framkvæmdarstjóra og eða stjórnarformenn ríkisfyrirtækja og stofnana eða lífeyrissjóða.

Allt þetta fólk er enn við störf. Það er engin að segja að dæma eigi þetta ágæta fólk eitthvað harðar en aðra. Vafinn er hins vegar alltaf þeirra. Hann er aldrei þeirra sem unnið er fyrir. Spurningin er hvort ekki sé kominn tími á tvær mínútur eins og í handboltanum. Menn átti sig á vitjunartíma sínum, hæfi eða vanhæfi. Fari útaf og láta síðan málið í dóm kjósenda ef þeir vilja aftur inná.

Ísland er stundum sagt minnst spillta land heimsins. Þetta er íslenska leiðin.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Bjarnason

Góð samantekt Nenni. - Burt með spillinguna.

Haraldur Bjarnason, 12.11.2008 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband