Yfirlýsing Kristinns Arnar Jóhannessonar vegna formannskjörs í V.R.

Mig langar að byrta yfirlýsingu Kristinn Arnar sem er að bjóða sig fram til formanns  V.R.

VR þarf nýjan formann. Í kjölfar bankahruns, gjaldeyriskreppu og efnahagsþrenginga sem þjóðin gengur nú í gegnum er þörf á nýju fólki með ný viðhorf til forystu. Á það jafnt við um stjórnmálaflokka sem og launþegasamtök. Hjá VR er þörfin brýn enda er þaulsitjandi formaður Gunnar Páll Pálsson um margan hátt tákngervingur þess sem hrunið er.  Tákngervingur þeirra sem þegið hafa há „markaðslaun“ en skirrast svo við að axla samsvarandi ábyrgð þegar þeim hefur augljóslega brostið dómgreindin.   Nú er tími og þörf fyrir fólk í forystu sem hefur fengið raunveruleg markaðslaun, hafa reynt atvinnumissi, fólk sem hefur alist upp á vinnumarkaði en ekki innan veggja verklýðsfélaga og stjórnarherbergja gjaldþrota stórfyrirtækja. Sú staða sem upp er komin í þjóðfélaginu hrópar á uppgjör við fortíðina svo renna megi stoðum undir uppbyggingu framtíðarinnar. Framtíðar þar sem launþegar njóta í raun virðingar, réttlætis og öryggis. Því miður er það svo, eins og nú hefur komið í ljós, að launþegasamtök eru orðin eins og sjálfstæðar stofnanir með eigin hagsmuni, hagsmuni sem margir hverjir eru á skjön við hagsmuni þeirra sem tilvera þeirra byggist á, þ.e. launþeganna sjálfra. Þessari stöðu þarf að breyta. Það er hinsvegar ólíklegt að þeir sem hafa haft forystu um að byggja upp kerfið og verja séu líklegir til að leiða það til breytinga. Gunnar Páll nýtur trausts stjórnarinnar í VR, fólks sem hann hefur unnið með í áraraðir og þarf sú afstaða ekki að koma á óvart, þvert á móti.  En nýtur hann trausts félagsmanna sinna? Eins ótrúlegt sem það er vill hann láta á það reyna þrátt fyrir að hafa ofboðið félagsmönnum sínum sem stjórnarmaður í hinum gjaldþrota Kaupþing banka.  Hann ofbauð félagsmönnum VR, því í umboði þeirra samþykkti hann, með hjásetu, ofurlaunakjör stjórnenda bankans. Í umboði VR þáði hann ofurstjórnarlaun frá bankanum sem nema um þreföldum lágmarks mánaðarlaunum VR félaga til viðbótar þeim ríflegu launum sem VR þegar greiddu honum.  Með hjásetu samþykkti Gunnar Páll , í umboði VR, aftur ofurlaunakjörin í bankanum á aðalfundi þar sem hann fór með atkvæðisrétt eiganda hlutabréfanna, Lífeyrissjóðs verslunarmanna ofl. Í umboði VR sat hann í stjórn banka sem vildi afskrifa skuldir stjórnenda hans sem nema um 50 milljörðum. Skuldir sem stofnað var til svo að stjórnendurnir mættu hagnast á hlutabréfakaupum í bankanum sjálfum. Skuldir sem Gunnari Páli fannst rétt að afskrifa svo þeir sömu gætu ekki tapað á viðskiptunum. Rétt er að minna á að Gunnar Páll hefði ekki komist í þessa dapurlegu stöðu hefði hann fylgt þeirri siðferðilegu ráðgjöf sem hann sjálfur bað um. Einnig finnst manni eðlilegt að laun fyrir stjórnarsetu í fyrirtækjum fyrir hönd VR hefðu annað hvort runnið til félagsins sjálfs eða komið til lækkunar á þeim launum sem hann þáði beint frá VR enda stjórnarseta tilkomin vegna starfa fyrir VR. Því miður sýna þessar athafnir Gunnars Páls, eða öllu heldur athafnaleysi, að hann var og er úr öllum tengslum við hinn almenna félagsmann í VR. Betra hefði verið að hann hefði sýnt félagsmönnum þá virðingu og réttlæti að draga sig í hlé og kalla eftir nýjum forystumanni.  Það er augljóst að ekki er auðvelt að bjóða sig fram gegn sitjandi formanni VR sem nýtur umtalsverðs aðstöðumunar, með stuðning stjórnar félagsins, er yfirmaður starfsfólks félagsins, er með aðgang að félagaskrám og getur fyrirhafnarlítið „litið inn“ á hina ýmsu fundi félagsmanna sem haldnir eru þessa dagana í nafni kynningar á VR.  Engu síður geri ég það og tilkynni hér með framboð mitt til formanns VR því ef einhverntíma var tilefni til að snúa „skorti á framboðum“ fortíðarinnar við þá er það nú. Kristinn Örn Jóhannesson

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband