Og hér er fréttatylkinning frá Kristni vegna formannskjörs V.R.

FRÉTTATILKYNNING. Kristinn Örn Jóhannesson tilkynnir framboð til formanns VR. Nýtt VR fyrir nýtt og betra Ísland. VR eru stærstu launþegasamtök landsins með um 28 þúsund félagsmenn og ætti því ekki að vera hörgull á áhugasömu fólki til að taka að sér trúnaðarstörf í þágu félagsins. Vera kann að værukærð þensluára og kosningafyrirkomulag félagsins hafi dregið úr fólki mátt og áhuga fyrir að láta til sín taka. En nú eru, því miður, komnar upp nýjar og verri aðstæður í þjóðfélaginu sem kalla eftir nýju fólki með ný viðhorf til að byggja upp nýtt Ísland. Eins stór samtök og VR eru, hafa þau verið furðu hljóðlát í kjölfar bankahruns, efnahags- og gjaldeyriskreppu, aðstæður sem ógna öllu launafólki og þá mest þeim sem lægstu launin hafa. Þessar nýju og verri aðstæður krefjast þess að launþegasamtök skilgreini sjálf sig og hlutverk upp á nýtt. Til þess að sú vinna skili árangri þarf nýtt fólk til forystu í launþegasamtökum almennt og í VR sérstaklega, ekki síst í ljósi þeirra óheppilegu tengsla, aðgerða og aðgerðarleysis núverandi forystu  í aðdraganda bankahrunsins.  VR, sem stærstu launþegasamtök landsins, eiga að vera leiðandi í að skapa það framtíðarþjóðfélag sem við viljum byggja upp. Þjóðfélag þar sem sátt ríkir um samfélagslega ábyrgð okkar á hvert öðru en ekki ábyrgð fjöldans á brostnum útrásardraumum fárra útvalinna sem sent hafa okkur stjarnfræðilegan reikning vegna þeirra drauma. Reikning sem við þurfum að borga með atvinnumissi, skertri samfélagsþjónustu, hærri sköttum og vísitölutryggðum ofurvöxtum. Það er deginum ljósara að komandi kjaraviðræður verða varnarviðræður því hrun þriggja fyrirtækja, stóru bankana, kipptu fótunum undan flestum öðrum fyrirtækjum landsins og ógna því afkomu flestra launþega með einum eða öðrum hætti. Þrátt fyrir gjörbreytt landslag í efnahag  landsmanna kusu stjórnvöld að fara enn á ný gömlu óréttlátu leiðina í ríkisfjármálunum. Ríkisstjórnin hafði gullið tækifæri við gerð síðustu fjárlaga til að leiðrétta óréttláta skattbyrði og ofuráherlsu á neysluskatta  á þá sem minnstu launin og ráðstöfunartekjurnar hafa. Sanngjarnara hefði verið að færa skattabyrðina til baka á þá sem mest bera úr býtum með beinum tekjuskatti og fjármagnstekjuskatti. Þess í stað kusu þau að auka neysluskatta sem er í raun tvöföld skattheimta því ekki einungis hækkar vöruverð heldur hækkar höfuðstóll og greiðslubyrði lána allra þorra landsmanna vegna verðbóta. Nær hefði verið að nýta fjármunina til að verja mennta-, velferðar- og ekki síst heilbrigðiskerfið í stað þess að fita efnahagsreikninga banka og lífeyrissjóða. Mikilvægsta verkefnið í bráð er að hækka lægstu launin og skattleysismörk atvinnutekna og minnka neysluskatta . Þannig bætum við best kjör þeirra lægst launuðu enda fáranlegt að tala um neyslu hjá þeim sem hafa laun sem vart duga til framfærslu. Þessi aðferðarfræði leggur áherslu á sameiginlega hagsmuni atvinnurekenda og launþega en áhersla á sameiginlega hagsmuni er grundvöllur uppbyggingarinnar sem framundan er. VR á glæsta sögu að baki og hefur haft mikil áhrif á mótun samfélagsins undanfarin ár. Nú er kominn tími til að beita áhrifamætti þess til fulls til að hafa áhrif á mótun þess samfélags sem mun rísa úr efnahagshruninu. Eitt mikilvægasta verkefnið á næstunni er að verja hag félagsmanna almennt og þá sérstaklega þeirra lægst launuðustu. Það er mikilvægt að félagið hafi úr sem flestum frambjóðendum að velja enda er það í anda lýðræðis og fjölda meðlima  VR að sem flestir séu í framboði. Í kosningum er betra að framboð sé meira en eftirspurn. Framboð þetta er fyrst og fremst beint gegn sitjandi formanni.
 
 Til ritstjórnar. Um Kristinn Örn JóhannessonKristinn er 42 ára, er í sambúð og á þrjár dætur, þriggja og fimm ára.Hann er vaktstjóri í flugrekstrareftirliti Primera Air.Hann nam flugrekstrarfræði í Bandaríkjunum og hefur starfað bæði hérlendis og erlendis síðastliðin 22 ár.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband